Elena Kristín Pétursdóttir
„I know there is no straight road
No straight road in this world
Only a giant labyrinth
Of intersecting crossroads“
~ Federico García Lorca ~
Ég hef alla tíð lesið mikið og haft áhuga á bókmenntum en er að láta gamlan draum rætast með því að fara í nám í bókmenntafræði. Ég stundaði áður diplómanám í mannauðstjórnun og viðskiptafræði sem hentaði starfi mínu betur á þeim tíma. Námið í bókmenntafræðinni hefur komið verulega á óvart og er langt umfram mínar væntingar. Það sem kom mér mest á óvart er það að bókmenntafræðin snýst ekki eingöngu um það að lesa bækur og skrifa ritgerðir, heldur hangir svo miklu meira á spýtunni. Maður lærir að greina og túlka texta, lærir að meta og greina ýmiss konar menningarefni og horfa gagnrýnum augum á leikrit og sjónvarp svo eitthvað sé nefnt. Í BA-náminu mun ég leggja áherslu á Ritlist en þar liggur mitt áhugasvið. Mig hefur alltaf langað til að skrifa skáldsögur og ljóðabækur og hef skrifað ýmislegt. Ég á ennþá fyrstu sögurnar sem ég skrifaði þegar ég var 10 ára gömul en þær voru um John Taylor leynilögreglumann frá New York og hvernig hann leysti gáturnar.
Ég er alæta á flestar bókmenntategundir en les mest af þjóðsögum og ævintýrabókmenntum en einnig les ég þó nokkuð af fagurbókmenntum. Ein af mínum uppáhaldsbókum er Birtingur eftir Voltaire, skrifuð 1759 og er í þýðingu Halldórs Laxness. Bókin er vel skrifuð og full af kímni. Sagan er fyrst og fremst skemmtisaga frá byrjun til enda þrátt fyrir að vera áhugaverð háðsádeila. Ég heillaðist af sögupersónum, frásagnarmáta og þessari einstöku íróníu sem er gegnumgangandi alla bókina. Einnig finnst mér Harry Potter, Hringadróttinsaga og The Hobbit vel skrifaðar ævintýrabókmenntir.
Af skemmtilegum fögum og úr mörgum er að velja, þá vil ég sérstaklega nefna spænskar bókmenntir sem Gunnþórunn Guðmundsdóttir kenndi haustið 2019. Við lærðum ekki eingöngu bókmenntafræði heldur líka um sögu og menningu Spánverja, sem var mjög áhugavert. Einnig vil ég nefna námskeiðin Nútímaleikritun og Jane Austin í samtímanum.
Það er aldrei að vita hvað maður gerir þegar námi lýkur, hvort það verður kennsla, skrif og skáldskapur eða eitthvað annað. Svo býður þetta nám upp á spennandi framhaldsnám og margt í boði sem kemur einnig vel til greina.