Birna Lárusdóttir

Ég er í grunninn blaða- og fréttamaður, með BA próf í fjölmiðlafræði frá University of Washington í Seattle, en hef unnið við ýmislegt í gegnum tíðina. Ég var lengi á hinum pólitíska vettvangi, einkum í sveitarstjórn en líka á landsvísu. Áður en ég settist á skólabekk nú í haust var ég upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði, sem hyggur á byggingu nokkurra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum.

Ég er í meistaranámi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og sé námið sem kjörna viðbót við reynsluna sem ég bý að – jafnt úr fyrra námi sem störfum. Ég vil gjarnan halda áfram á svipaðri braut til framtíðar en er þó opin fyrir hvers kyns nýjum hugmyndum og möguleikum. Ég er í raun að taka upp meistaraþráðinn á nýjan leik þar sem ég lauk öllum áföngum í þýðingafræði fyrir nokkrum árum. Ritgerðin ein stóð út af borðinu. Ég kaus að skipta um braut þar sem ritstjórnin höfðar meira til mín þótt ég eigi enn eftir að ákveða frekari efnistök þar. Þó var margt í þýðingafræðinni sem heillaði. Áfangarnir hjá Gauta Kristmannssyni, prófessor, stóðu upp úr að mínu mati enda er hann bæði sérlega fróður og skemmtilegur fyrirlesari.

Frítíminn minn hefur hin síðustu ár farið að mestu í að fylgjast með körfubolta. Börnin mín fjögur völdu öll þá íþrótt og sem foreldri fór ég á bólakaf í ýmis stjórnunarstörf því tengdu, m.a. í stjórn sérsambandsins. Þann tíma sem afgangs er nýti ég í bókalestur, sjónvarp og bíó og veit fátt betra en þessa miðla til að vinda ofan af deginum. Á náttborðinu síðustu misseri hafa einkum verið höfundar á borð við Jón Kalman og Auði Jóns en svo laumast krimmahöfundarnir inn á milli, einkum á sumrin. Breskt búningadrama, einkum konunglegt, er í miklu upphaldi hjá mér og þar trónir Crown á toppnum um þessar mundir. Vel unnir sjónvarpsheimildaþættir halda mér líka alltaf vel við efnið á meðan Vera Illuga er ómissandi í hlaðvarpinu þegar hún varpar ljósi á söguna.

Ég kýs að grípa til spakmælis sem minnir okkur á að njóta alltaf augnabliksins. Það er ekki úr fórum heimsfrægra hugsuða heldur sótt í smiðju mannsins míns áratugum áður en núvitund varð að tískufyrirbæri: „Hamingjan er núna“.

 

Myndatexti:

  1. Birna Lárusdóttir
  2. Ísafjörður – fallegasti fjörðurinn.
  3. Friðsæld í uppsveitum Suðurlands.
  4. „Hamingjan er núna“ í Grunnavík í Jökulfjörðum.