Björn Þór Vilhjálmsson
Dósent
Í hnotskurn
Hvernig lá leið þín í
almenna bókmenntafræði?
Það var nú býsna róttæk stefnubreyting þar sem ég tók stúdentspróf í hagfræði en þegar á reyndi kom einhvern veginn ekkert annað til greina. Á þeim tíma, öndverðum tíunda áratugnum, var reyndar fjölbreytileikinn í menningargreinunum hvergi nærri sá sami og nú, valið stóð í raun á milli íslenskunnar og almennu bókmenntafræðinnar, og hugurinn leitaði út fyrir landsteinana
Hvað er það áhugaverðasta við almenna bókmenntafræði?
Breiddin í námskeiðavali er auðvitað mikil, ólíkum bókmenntagreinum, tímabilum og þjóðlöndum er sinnt, en það áhugaverðasta kann samt að vera viðhorfið í garð bókmennta og texta sem þar ræður ríkjum, opið, rannsakandi, gagnrýnið og spyrjandi
Af hverju er almenn bókmenntafræði sniðugt námsval?
Franskur heimspekingur á víst eitt sinn að hafa sagt að ekkert standi utan textans og þótt við kjósum kannski að taka þessari fullyrðingu ekki alveg bókstaflega er staðreyndin sú að við búum öll í samfélagi sem samanstendur af ólíkum textum, það er menningin sem við þekkjum og dveljum í, og í samfélagi þessara texta eru bókmenntirnar kannski mikilvægastar. Og bókmenntafræðin gefur öllum þessum textaformum gaum, við lesum texta í víðum samfélagslegum skilningi og lærum þannig að skilja okkur sjálf og okkar samfélag betur.
Að því sögðu er almenna bókmenntafræðin sniðugt námsval af tveimur öðrum ástæðum. Annars vegar er námið stökkpallur inn í allskonar spennandi störf í menningar- og bókmenntalífinu. Hins vegar fylgir námið þér ævina út, þú átt aldrei eftir að lesa bók, dagblað, horfa á kvikmynd eða skoða auglýsingu, ganga inn á listasafn eða ferðast erlendis með sama hætti og þú gerir eftir námið í bókmenntafræðinni. Hún dýpkar og skerpir skilning okkar á því sem í kringum okkur er, við erum alltaf að lesa og túlka, og nám í bókmenntafræði gerir þér kleift að gera það með gjöfulum, gagnrýnum og margbreytilegum hætti
Hvert er þitt áhugasvið innan fræðigreinarinnar?
Ég myndi segja að það væri skörun bókmennta og annarra miðla sem og spurningar um bókmenntahugtakið sjálft, hvernig það er að þróast og breytast á stafrænum tímum, og hvernig tækniumhverfi samtímans kallar á nýja leshætti. Svo er ég auðvitað klofinn í herðar niður, að hálfu í bókmenntafræðinni og að hálfu í kvikmyndum og kvikmyndafræðinni, þannig að þar er auðvitað heilt svið í viðbót sem ég hef áhuga á, og tengingarnar á milli bókmennta og kvikmynda eru mér afskaplega mikilvægar
Námsferill
Ph.D., UW, Madison, Gagnrýnin bókmennta- og kvikmyndafræði
MA, UW, Madison, Samanburðarbókmenntir
MA, Háskóli Íslands, Almenn bókmenntafræði
BA, Háskóli Íslands, Almenn bókmenntafræði
Sérsvið
Sérsvið Björns Þórs eru kvikmyndir og nýmiðlar, leikjafræði og skjámenning, íslenskar kvikmyndir og kvikmyndasaga, kvikmynda- og bókmenntakenningar og skörun bókmennta og kvikmynda. Þá ber að nefna að Björn hefur sérstakt dálæti á Frankfurtarskólanum svokallaða og nefnir gjarnan Díalektík upplýsingarinnar eftir Adorno og Horkheimer þegar hann er inntur eftir eftirlætisbókinni sinni.
Tilvitnunin
„Þetta er ekki spurning um að geta heldur að gera.“
–Purrkur Pillnikk
Hafa samband
- btv [hjá] hi.is
- 525 43 47
- Gimli, G-305
Molinn
Úr greininni „„Taumlaust blóðbað án listræns tilgangs“: Íslenski bannlistinn og Kvikmyndaeftirlit ríkisins“ sem birtist í Ritinu 2/2019.
Gömul ógn mætir nýrri
Í aðdraganda stofnunar Kvikmyndaeftirlits á öðrum og þriðja áratug liðinnar aldar voru uppeldisleg sjónarmið vissulega möndull umræðunnar en varhugavert væri samt að aðskilja áfellisdóminn yfir kvikmyndum á þessum tíma frá undirliggjandi viðhorfum um listrænt gildi þeirra – einkum í ljósi þess að útbreiddur skilningur á listum fram á tuttugustu öldina var sá að þær ættu að upplýsa, næra andann og fegra og almennt hafa mannbætandi áhrif. Í Kvennablaðinu birtist t.a.m. grein árið 1912 sem stillti upp „hinni óhollu skemmtun“ bíóanna andspænis voninni um leikhús í Reykjavík þar sem sýna mætti „þjóðlega list og djúpar hugsjónir“.[1] Í huga Halldórs Laxness var framleiðsla menningarverkbólanna í Hollywood leirburði verri og fyrir Einari Olgeirssyni skorti kvikmyndir – í öllu falli þær sem teknar voru til sýninga hér á landi – sárlega „menningargildi“. Guðmundur Hagalín lýsti kvikmyndum sem „erlendri ómenningu“ og vandfundið er dæmi um starfandi kvikmyndagagnrýnanda sem hafði jafnmikla andstyggð á faglegu viðfangsefni sínu og Högni Egilsson.
Áfram mætti auðvitað telja en það sem mikilvægt er að hafa í huga er að þegar löggjafavaldið stígur fram á níunda áratugnum til að mæta „nýrri“ ógn (skaðlegar, hættulegar og spillandi kvikmyndir) þá er jafnframt um gamla ógn að ræða. Líkt og fyrr er gripið til barnaverndarsjónarmiða til að draga fram þungann og alvöruna sem liggur málefninu til grundvallar, en sömuleiðis er lagt til atlögu við tegund kvikmynda sem lengi höfðu verið íslenskum siðapostulum og hugsjónarmönnum þyrnir í augum; þann menningarsnauða hroða sem ávallt hafði ofboðið einhverjum, erlenda óværu sem ekkert erindi átti inn í íslenskt menningarsamhengi. Þetta voru kvikmyndir sem höfðuðu aðeins til lægstu hvata áhorfenda, líkt og áfengi og fíkniefni, og voru hættulegar í spillingarmætti sínum. Það er því ekki að undra að þegar tekið er að ræða „ofbeldismyndir“ á níunda áratugnum þá sé ómurinn úr nær sjö áratuga langri orðræðuhefð auðgreinanlegur; það sem nú voru kallaðar „ofbeldismyndir“ höfðu áður gengið undir nöfnum á borð við „hneykslismyndir“ og „vítismyndir“. Þá er auðvitað vandfundinn táknrænni minnisvarða um meintar hættur kvikmyndamiðilsins en sjálf tilvist bannlistans.
Í þessu samhengi var myndbandaleigan undarlegt og að sumu leyti varhugavert rými, og þessum rýmum fjölgaði sífellt – sem þýddi að eitrunaráhrif ofbeldismyndanna seytluðu um flest íbúðahverfi landsins. Sátt var um að ófremdarástand ríkti í þessum málaflokki, og það kallaði á ýtrustu viðbrögð löggjafans. Innleiðslu ritskoðunar á einni og aðeins einni listgrein, kvikmyndinni. Á öðrum áratug aldarinnar, þegar bæjarbúum ofbauð það sem fram fór í kvikmyndahúsunum, var spurt, hvar er lögreglan? Í febrúar 1985 svaraði lögreglan kallinu með afdráttarlausum hætti. Og það er í þessu ljósi sem skoða verður bannlistann, ráðgáta sem hann annars er frá kvikmyndafræðilegu sjónarhorni. Og hvers verðum við þá áskynja? Gott ef það rennur ekki upp fyrir okkur að þótt listinn sé vissulega vitnisburður um handahófskenndar geðþóttaákvarðanir, inntar af hendi af fólki sem hafði til að bera takmarkaðan skilning á kvikmyndum, þá sé skýringa á tilvist hans einmitt að leita í langri sögu tortryggni í garð kvikmyndamiðilsins; tortryggni sem magnast upp í nýju umhverfi myndbandaleigunnar og samlegðaráhrifum framboðsins sem þar var á boðstólnum og fær svo enn meiri byr í krafti fordóma í garð tiltekinna tegunda kvikmynda – hrollvekjunnar, vísindaskáldskaparmyndarinnar, mannætumyndarinnar, ódýrra mynda sem rætur eiga að rekja út fyrir meginstrauminn og kunna að vera talsettar eða frumstæðar í samanburði við það sem jú alltaf er viðmiðið, Hollywood.
En allt var þetta nú í þágu barnanna.
[1] Skarphéðinn Guðmundsson, „Hvar er lögreglan?“, bls. 834.